Pogba hvetur ungu strákana til dáða

Paul Pogba
Paul Pogba AFP

Paul Pogba hefur hvatt unga leikmenn Manchester United til dáða en hann vill sjá þá verða að hetjum hjá „stærsta knattspyrnufélagi sögunnar“.

Manchester United brýtur blað í sögunni á morgun þegar Everton kemur í heimsókn á Old Trafford en þetta mun vera í 4.000. leiknum í röð sem liðið teflir fram uppöldum leikmanni eða leikmönnum í hópi. Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri United, staðfesti að Marcus Rashford og Mason Greenwod yrðu í hópnum á morgun og þá er ekki ólíklegt að fleiri ungir leikmenn félagsins verði á varamannabekknum.

„Þetta er ótrúlegt met og sýnir hvað þetta félag snýst um, hver menningin hérna er,“ sagði Paul Pogba aðspurður um metið en hann hefur verið frá undanfarnar vikur vegna meiðsla. „Ég er ekki beint gamall en ég vona að þessir ungu strákar muni einn daginn koma í minn stað. Ég mun ekki spila að eilífu og þessir strákar geta stigið upp og orðið að hetjum hjá félaginu.“

Pogba var sjálfur í akademíu United á unglingsárunum og hefur því átt sinn þátt í að viðhalda þessu meti sem byrjaði í leik í annarri deild gegn Fulham árið 1937. Pogba kom til United 16 ára áður en hann fór til Juventus í nokkur ár og sneri svo aftur til Manchester.

„Við höfum alltaf talað um unga leikmenn hjá þessu félagi og mikilvægi þess að koma þeim inn í aðalliðið. Það er ótrúlegt að þetta hafi staðið síðan 1937. Við viljum halda þessu áfram og sjá næstu kynslóðir komast inn í liðið.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert