Sir Alex ekki hrifinn af „ofurdeild“

Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United.
Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United. AFP

Sir Alex Ferguson, fyrrverandi knattspyrnustjóri Manchester United, er ekki hrifinn af hugmyndinni um hina svokölluðu „ofurdeild“ sem reglulegu skýtur upp kollinum í íþróttafjölmiðlum um alla Evrópu.

Alþjóðknattspyrnusambandið, FIFA, vill stækka heimsmeistarakeppni félagsliða á næsta ári og þá hafa forráðamenn stærstu félaga Englands og Spánar rætt stofnun nýrrar ofurdeildar 20 stærstu knattspyrnuliða Evrópu.

Fyrirkomulag slíkrar deildar yrði á þá vegu að þekktustu lið álfunnar myndu segja sig úr deildarkeppnum heima fyrir sem og Meistaradeild Evrópu til þess að taka þátt í þessari keppni hinna bestu en ekki er ólíklegt að félögin gætu hagnast töluvert á þessu fyrirkomulagi.

„Það er engin spurning að þetta snýst um peninga en ég get ekki ímyndað mér að svona deild myndi heilla okkar félög í úrvalsdeildinni. Við erum með bestu deild í heimi og hún er nú þegar vel studd af bakhjörlum,“ sagði Ferguson í viðtali við BBC.

„Ég held að mörg félög með stórkostlega sögu á bak við sig myndu glatast ef þessi deild yrði stofnuð.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert