Toppliðið marði botnliðið

Tveggja marka hetjan. Mohamed Salah fagnar fyrsta marki sínu á …
Tveggja marka hetjan. Mohamed Salah fagnar fyrsta marki sínu á Anfield í dag. AFP

Topplið Liverpool þurfti að hafa fyrir því að leggja botnlið Watford að velli, 2:0, á Anfield í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í dag. Liverpool er nú með 11 stiga forystu á toppi deildarinnar en þetta var aðeins í annað sinn síðan í mars sem liðinu tekst að halda hreinu tvo leiki í röð.

Nigel Pearson tók við botnliði Watford í vikunni og virðist hann strax hafa náð að setja mark sitt á slakasta lið deildarinnar ef marka má leikinn í dag. Gestirnir voru síst lakari aðilinn lengst af og vörðust vel en heimamönnum tókst þó að brjóta ísinn fyrir hálfleik.

Mohamed Salah skoraði á 38. mínútu úr fyrsta alvörufæri Liverpool. Hann fékk þá sendingu frá Sadio Mané inn í vítateig áður en hann sneri af sér varnarmann og þrumaði boltanum upp í fjærhornið með hægri fætinum. Mané virtist svo hafa tvöfaldað forystu Liverpool snemma í síðari hálfleik en eftir athugun myndbandsdómara var markið dæmt af vegna rangstöðu.

Gestirnir fengu sín færi en Ismaila Sarr komst næst þegar hann hitti ekki boltann fyrir galopnu marki. Salah innsiglaði svo sigurinn með laglegu marki undir lok leiks, aftur eftir stoðsendingu Manés, til að tryggja Liverpool enn ein þrjú stigin. Watford er sem fyrr á botninum með níu stig og aðeins einn sigur í 17 leikjum.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Liverpool 2:0 Watford opna loka
90. mín. Mohamed Salah (Liverpool) skorar 2:0 - Er toppliðið að tryggja sigurinn? Aftur ætlar VAR að skoða markið.
mbl.is