Everton stöðvaði Man. United

Marcus Rashford skýtur að marki og Seamus Coleman reynir að …
Marcus Rashford skýtur að marki og Seamus Coleman reynir að komast fyrir á Old Trafford í dag. AFP

Everton sótti stig gegn Manchester United á Old Trafford í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu eftir að liðin skildu jöfn, 1:1, í 17. umferðinni í dag. Þá vann Tottenham 2:1-útisigur á Wolves þökk sé sigurmarki í blálokin.

United var búið að vinna þrjá leiki í röð fyrir daginn í dag, þar af leiki gegn Tottenham og Manchester City, en Everton hefur einnig verið á uppgangi eftir að Duncan Ferguson tók við liðinu sem bráðabirgðastjóri. Everton vann Chelsea um síðustu helgi og komst yfir seint í fyrri hálfleik í dag þegar Victor Lindelöf skoraði sjálfsmark úr hornspyrnu Leighton Baines.

Gylfi Þór Sigurðsson var einn nokkurra leikmanna Everton sem voru ekki með í dag vegna veikinda og meiðsla en Gylfi veiktist í morgun og varð að segja sig úr hópnum. Meiðslahrjáð lið Everton varð svo fyrir enn einu högginu þegar Lucas Digne þurfti að yfirgefa völlinn eftir um hálftímaleik en inn kom Baines sem lagði upp fyrsta markið.

Markið var skoðað í VAR þar sem Dominic Calvert-Lewin virtist brjóta á David de Gea í marki United í aðdragandanum en markið var þó ekki dæmt af. United bætti leik sinn eftir hlé og sótti stíft fram á 77. mínútu þegar því loks tókst að kreista fram jöfnunarmark. Það gerði táningurinn Mason Greenwood, sem var nýkominn af varamannabekknum, með hnitmiðuðu skoti í bláhornið utan teigs. Bæði lið reyndu svo að næla í sigurmark en án árangurs. United er því í 6. sæti deildarinnar með 25 stig og Everton áfram í 16 sæti með 18 stig.

Tottenham skoraði í blálokin

Tottenham er komið upp í 5. sætið og hefur nú 26 stig eftir dramatískan 2:1-sigur á Wolves. Lucas Moura kom gestunum yfir strax á 8. mínútu áður en Adama Traoré jafnaði metin fyrir Wolves eftir rúmlega klukkutíma leik. Lærisveinar José Mourinho náðu hins vegar að skora sigurmark í uppbótartíma, þvert gegn gangi leiksins, þegar Jan Vertonghen skallaði boltann í netið, einn og óvaldaður, eftir hornspyrnu frá Christian Eriksen.

Man. Utd 1:1 Everton opna loka
90. mín. Fjórar mínútur í uppbótartíma.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert