Gylfi á aldrei að spila aftur fyrir Everton

Gylfi Þór Sigurðsson
Gylfi Þór Sigurðsson AFP

Það hefur gengið illa hjá Gylfa Þór Sigurðssyni með Everton í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í vetur en hann átti erfitt uppdráttar í enn einum leiknum um helgina þegar Everton og Arsenal gerðu markalaust jafntefli á Goodison Park.

Matt Cheetham, íþróttafréttamaður Sky Sports, tók saman sláandi tölfræði um Gylfa en hann hefur nú spilað fjóra úrvalsdeildarleiki, um sjö klukkustundir, án þess að skapa eitt einasta færi úr opnu spili.

Gylfi er enn dýrasti leikmaðurinn í sögu Everton sem keypti hann á 45 milljónir punda sumarið 2017 en margir stuðningsmenn virðast hafa fengið sig fullsadda. Eftir leikinn í gær kölluðu margir eftir því að Gylfi yrði látinn fara frá félaginu á samfélagsmiðlinum Twitter. Gekk einn svo langt að segja að hann ætti aldrei að spila aftur fyrir Everton.

Chris Beesley, blaðamaður Liverpool Echo, veltir einnig fyrir sér framtíð Gylfa sem Ronald Koeman lagði svo hart að sér að fá til félagsins. Gylfi er „leikmaður stórbrotinna tilþrifa en hvað gerist þegar tilþrifin láta ekki sjá sig?“ skrifaði Beesley.

Það verður eitt af aðalverkefnum Carlo Ancelotti, nýráðins stjóra Everton, að koma Gylfa aftur í gang.

mbl.is

Bloggað um fréttina