Verður erfitt að stöðva þá úr þessu

James Milner skorar annað mark Liverpool í gærkvöld af vítapunktinum, …
James Milner skorar annað mark Liverpool í gærkvöld af vítapunktinum, með sinni fyrstu spyrnu eftir að hafa komið inn á sem varamaður. AFP

Brendan Rodgers, knattspyrnustjóri Leicester og forveri Jürgens Klopp hjá Liverpool, sagði eftir stórtap gegn Liverpool í uppgjöri efstu liða ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu í gærkvöld, 0:4, að það yrði afar erfitt að stöðva sitt gamla félag úr þessu.

„Tveir síðustu leikir hafa verið afgerandi fyrir okkur," sagði Rodgers við fréttamenn en Leicester tapaði fyrir Manchester City í síðasta leik fyrir jól, 3:1.

„Vegna þess hve vel okkur hefur gengið í vetur vorum við komnir inn í þessa titilbaráttu, en eins og þið hafið séð í síðustu tveimur leikjum höfum við mætt gríðarlega góðum liðum og Liverpool lék stórkostlega í kvöld. Það verður afar, afar erfitt að stöðva þá úr þessu, það er enginn vafi. Þeir eru með magnað lið og sjálfstraustið er mikið. Þeir eru orðnir að sigurvegurum og hafa ekki tapað oft á síðustu 18 mánuðunum.

Þeir eru með nægilega stóran hóp, nægilega reynslu og nægileg gæði til að halda einbeitingunni og sigla þessu í höfn," sagði Brendan Rodgers.

Eftir leikinn er Liverpool með 52 stig á toppnum, Leicester er með 39 stig og Manchester City 38 en City mætir Wolves í lokaleik umferðarinnar í kvöld. Liverpool á síðan inni leik gegn West Ham.

mbl.is

Bloggað um fréttina