Metin sem Liverpool gæti slegið í vetur

Liverpool hefur átt góðu gengi að fagna undanfarna átján mánuði …
Liverpool hefur átt góðu gengi að fagna undanfarna átján mánuði og gæti slegið mörg met í vetur ef sigurgangan heldur áfram. AFP

Á vef ensku úrvalsdeildarinnar í knattspyrnu hefur verið birtur listi yfir þau met sem Liverpool getur slegið á yfirstandandi keppnistímabili, haldi liðið áfram á þeirri sigurbraut sem það hefur verið á til þessa. Liverpool hefur unnið 19 af fyrstu 20 leikjum sínum og er með yfirburðaforystu í deildinni.

Besta byrjun eftir 21 leik: Ef Liverpool vinnur Tottenham á laugardaginn slær liðið met Manchester City sem vann 19 leiki og gerði 2 jafntefli í 21 leik 2017-18.

Flestir heimasigrar í röð: Liverpool er tveimur leikjum frá því að jafna við Manchester City sem vann 20 heimaleiki í röð á árunum 2011 og 2012.

Flestir sigurleikir í röð: Liverpool hefur unnið 11 leiki í röð og er sjö leikjum frá meti City sem vann 18 leiki í röð á árinu 2017.

Flestir leikir án taps: Liverpool er ósigrað í 37 leikjum í deildinni og er 12 leikjum á eftir Arsenal sem var taplaust í 49 leikjum á árinum 2003 til 2004.

Flest töp á tímabili: Liverpool er enn þá taplaust og getur því jafnað met Arsenal sem tapaði ekki leik tímabilið 2003-2004.

Flestir sigrar á tímabili: Manchester City vann 32 leiki, bæði 2017-18 og 2018-19. Liverpool er komið með 19 sigra og þarf að vinna 14 leiki af 18 til að slá met City.

Flest stig á tímabili: Met Manchester City er 100 stig 2017-18. Liverpool getur enn náð 112 stigum og mætti því tapa þremur leikjum og gera eitt jafntefli og slá samt metið.

Flestir heimasigrar á tímabili: Chelsea, Manchester United og Manchester City (tvisvar) hafa unnið 18 leiki af 19. Liverpool hefur unnið alla 11 heimaleikina í vetur og getur því slegið metið.

Flestir útisigrar á tímabili: Liverpool hefur unnið átta útileiki af níu og getur slegið met Mancheter City sem vann 16 af 19 tímabilið 2017-18.

Lengstur tími án taps: Arsenal tapaði ekki í 537 daga, frá maí 2003 til október 2004. Liverpool slær metið ef liðið kemst taplaust í gegnum tímabilið og færi þá fram úr Arsenal 23. júní í sumar.

mbl.is