Upplausn hjá Everton?

Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið orðaður við brottför frá félaginu …
Gylfi Þór Sigurðsson hefur verið orðaður við brottför frá félaginu að undanförnu. AFP

Dominic King, blaðamaður hjá Daily Mail og sérfræðingur í málefnum enska knattspyrnufélagsins Everton, setti inn áhugaverða færslu á Twitter í gær. Þar gaf King það til kynna að hluti af leikmannahópi Everton sé ósáttur með nýráðinn stjóra liðsins, Carlo Ancelotti, en Ítalinn tók við stjórnartaumunum á Goodison Park rétt fyrir jól.

Lítið hefur gengið hjá félaginu á þessari leiktíð en Everton tapaði á útivelli gegn unglingaliði Liverpool í 3. umferð ensku bikarkeppninnar um síðustu helgi. King greinir frá því að hluti af leikmannahópi Everton hafi farið og rætt við Duncan Ferguson, aðstoðarþjálfara liðsins, til þess að láta vita af óánægju sinni með ítalska stjórann.

King fer ekki fögrum orðum um þessa leikmenn sem eru ónafngreindir í færslu hans en ítrekar að ef rétt sé farið með staðreyndir eigi þessir leikmenn aldrei að spila aftur fyrir félagið. Gylfi Þór Sigurðsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er leikmaður Everton, en hann hefur verið orðaður við brottför frá félaginu í enskum fjölmiðlum að undanförnu.

Everton er í ellefta sæti ensku úrvalsdeildarinnar með 25 stig en Ancelotti er afar reyndur stjóri sem hefur meðal annars fagnað sigri í Meistaradeildinni í þrígang. Fjölmiðlar á Englandi segja að Ancelotti hafi verið duglegur að láta leikmenn sína heyra það að undanförnu eftir slæma frammistöðu sem virðist eitthvað fara fyrir brjóstið á leikmönnum liðsins.

mbl.is