Góð markvarsla kemur Áströlum til góða

Mathew Ryan er markvörður Brighton.
Mathew Ryan er markvörður Brighton. AFP

Mathew Ryan, landsliðsmarkvörður Ástralíu og markvörður enska knattspyrnuliðsins Brighton, ætlar að styrkja landa sína veglega um helgina vegna skógareldanna sem geisa í heimalandi hans og hafa valdið gríðarlegum skaða undanfarnar vikur.

Ryan hefur heitið því að gefa 500 ástralska dollara fyrir hverja skráða markvörslu í úrvalsdeildinni í umferð helgarinnar í söfnun vegna þeirra sem eiga um sárt að binda í Ástralíu en það nemur um 42 þúsund íslenskum krónum. Að meðaltali verja markverðirnir um 60 skot samtals í tíu leikjum í hverri umferð og upphæðin gæti því numið um 30 þúsund áströlskum dollurum, eða um tveimur og hálfri milljón íslenskra króna.

Sjálfur mun Ryan verja mark Brighton gegn Gylfa Þór Sigurðssyni og samherjum í Everton á Goodison Park en sá leikur hefst klukkan 15 á morgun.

mbl.is