Miklar hreinsanir fram undan hjá Everton

Gylfi Þór Sigurðsson er einn af þeim leikmönnum sem hefur …
Gylfi Þór Sigurðsson er einn af þeim leikmönnum sem hefur verið settur á sölulista samkvæmt fréttum á Englandi. AFP

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Everton í ensku úrvalsdeildinni, ætlar að hreinsa duglega til í leikmannahópi sínum en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Ancelotti tók við stjórnartaumunum hjá félaginu rétt fyrir jól eftir að Portúgalinn Marco Silva var rekinn frá félaginu í byrjun desember.

Mikið hefur verið rætt og ritað um félagið að undanförnu sem féll úr leik í 3. umferð ensku bikarkeppninnar eftir niðurlægjandi tap gegn hálfgerðu unglingaliði Liverpool á Anfield um síðustu helgi. Þá eru einhverjir leikmenn í herbúðum Everton sagðir ósáttir við ítalska knattspyrnustjórann sem hefur þrívegis stýrt liði til sigurs í Meistaradeild Evrópu.

Ancelotti er nú þegar byrjaður að hreinsa til í leikmannahóp sínum en tyrkneski framherjinn Cenk Tosun er nú þegar farinn frá félaginu til Cyrstal Palace á láni. Enskir fjölmiðlar greina frá því að fimm aðrir leikmenn séu á sölulista en það eru þeir Gylfi Þór Sigurðsson, Theo Walcott, Morgan Schneiderlin, Michael Keane og Jordan Pickford.

Með því að losa þessa leikmenn vonast Ancelotti til þess að safna í kringum 150 milljónum punda sem hann ætlar sér að nota til þess að kaupa nýja leikmenn. Nafn Gylfa Þórs Sigurðssonar, landsliðsmanns Íslands, hefur verið mikið í umræðunni að undanförnu en það bendir allt til þess að Gylfi, sem er dýrasti leikmaður í sögu Everton, sé á förum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert