Mögulegt að Maguire spili á morgun

Harry Maguire er lykilmaður í vörn Manchester United.
Harry Maguire er lykilmaður í vörn Manchester United. AFP

Harry Maguire, miðvörður enska landsliðsins, gæti spilað með Manchester United gegn Norwich í úrvalsdeildinni á morgun þrátt fyrir meiðsli sem hann varð fyrir um síðustu helgi.

Maguire meiddist á mjöðm í bikarleik United gegn Wolves síðasta laugardag og óttast var að hann yrði frá í einhvern tíma. Hann missti af undanúrslitaleiknum gegn Manchester City í deildabikarnum á þriðjudagskvöldið en United tapaði þar fyrri viðureign liðanna, 1:3.

„Hann á möguleika á að spila á morgun þannig að við sjáum hvort hann komist í gegnum æfinguna í dag. Meiðslin reyndust ekki slæm — við tökum stöðuna á morgun,“ sagði Ole Gunnar Solskjær knattspyrnustjóri United á fréttamannafundi fyrir stundu.

Hann staðfesti að Jesse Lingard yrði ekki með vegna veikinda en honum sló niður aftur eftir að hafa spilað gegn Manchester City.

Þá sagði Solskjær að bæði Eric Bailly og Tim Fosu-Mensah myndu spila með 23-ára liði félagsins gegn Newcastle í kvöld en þeir eru báðir að snúa aftur á völlinn eftir langa fjarveru vegna hnjámeiðsla.

mbl.is