„Verð þunglyndur ef ég tala of mikið“

José Mourinho og lærisveinar hans í Tottenham taka á móti …
José Mourinho og lærisveinar hans í Tottenham taka á móti Liverpool í ensku úrvalsdeildinni á morgun. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, var ekki tilbúinn að ræða málefni Harry Kane, framherja liðsins, á blaðamannafundi Tottenham í dag. Tottenham mætir Liverpool í stórleik ensku úrvalsdeildarinnar á morgun en Kane verður frá næstu tíu vikurnar vegna meiðsla aftan í læri.

„Harry Kane er mikilvægur leikmaður og algjörlega ómissandi. Það getur enginn komið í stað Harry Kane,“ sagði Mourinho á fundinum í dag. „Ég veit að fjölmiðlamenn vilja ræða Harry Kane en ég vil það alls ekki. Ég verð þunglyndur ef ég tala of mikið um meiðsli Harry Kane og þá munuð þið skrifa um að ég sé í vondu skapi.“

„Það er þess vegna best fyrir mig að segja ekki of mikið og ég vil freka einbeita mér að hlutum sem fá mig til þess að gleðjast og hlæja. Ég kom hingað fyrir tveimur mánuðum og þá var ástandið öðruvísi. Ef ég hefði vitað að bæði Kane og Sissoko yrðu lengi frá hefði ég mögulega gert einhverjar ráðstafanir.“

„Þetta er hins vegar staðan á leikmannahópnum og ég þarf að gera mitt besta til þess að ná því besta út úr þeim leikmönnum sem eru til taks og tilbúnir í slaginn. Þegar ég starfaði hjá Sky Sports sagði ég opinberlega að Liverpool yrði meistari því það er besta liðið í deildinni í dag og það hefur ekki breyst,“ bætti Portúgalinn við.

mbl.is