Besta lið í heimi heppið

José Mourinho var líflegur á hliðarlínunni í kvöld.
José Mourinho var líflegur á hliðarlínunni í kvöld. AFP

José Mourinho, knattspyrnustjóri Tottenham, segir að topplið Liverpool hafi verið heppið með það að fá stigin þrjú í kvöld í leik liðanna í ensku úrvalsdeildinni í kvöld sem lyktaði með 1:0 sigri gestanna frá Liverpool. 

„Stundum færðu meira en það sem þú átt skilið. Stundum færðu minna. Í kvöld fengum við ekkert en áttum eitthvað skilið,” sagði Mourinho við Sky Sports eftir leik.

„Ég sagði við ykkur [innsk. blm. Sky] þegar þeir unnu Manchester City fyrir þremur eða fjórum mánuðum að þeir myndu vinna deildina. En þeir voru heppnir í kvöld og hefðu getað fengið á sig mark og rautt spjald á Robertson vegna tæklingar hans,” sagði Mourinho m.a. eftir leik.

Hrósaði hann þó einnig Liverpool-liðinu, sagði það það besta í heimi, sem hefði mætt Tottenham-liðinu á slæmum stað er varðar meiðsli, en að sitt lið hefði staðið sig vel.

Mourinho var aukinheldur ósáttur við annan aðstoðardómara leiksins sem dæmdi Liverpool innkast sem leiddi til sigurmarks Roberto Firmino. 

„Það sem ég sá var að þetta innkast var 200% okkar innkast. Ég er hugsi vegna VAR í tengslum við það,” sagði Mourinho.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert