Sigurganga Liverpool heldur áfram

Roberto Firmino fagnar marki sínu í kvöld.
Roberto Firmino fagnar marki sínu í kvöld. AFP

Liverpool vann Tottenham í Lundúnum, 1:0, og sinn 12. deildarleik í röð, með marki Roberto Firmino, og hefur nú unnið 20 leiki af 21 í ensku úrvalsdeildinni það sem af er tímabili. Með sigrinum jók Liverpool forskot sitt í 16 stig þar sem Leicester tapaði gegn Southampton fyrr í dag. Liverpool á auk þess leik til góða á refina en Manchester City getur á aftur á móti minnkað það forskot niður í 14 stig með sigri á Aston Villa á morgun.

Með sigrinum í kvöld er Liverpool komið í 61 stig sem er það mesta sem nokkurt annað lið í fimm stærstu deildum Evrópu hefur náð í 21 leik.

Mark Firmino kom á 37. mínútu eftir undirbúning frá Mohamed Salah en Tottenham fékk tvö afar góð færi til þess að jafna metin í síðari hálfleik.

Liverpool hóf fyrri hálfleikinn af krafti og fékk dauðafæri strax á 2. mínútu er skot Roberto Firmino var naumlega bjargað á línu af Japhet Tanganga, sem spilaði sinn fyrsta úrvalsdeildarleik í kvöld. Í kjölfarið fór boltinn til Alex Oxlade-Chamberlain, sem skaut í stöng og út. Sterk byrjun gestanna.

Upplegg José Mourinho var augljóslega að liggja aftarlega og beita skyndisóknum enda var Liverpool 72% með boltann í fyrri hálfleik, en 68% í leiknum öllum. Það upplegg gekk ágætlega til að byrja með og fengu þeir Lucas Moura, Song Heung-min, Dele Alli og Christian Eriksen allir tækifæri til þess að láta vaða á markið á fyrstu 20 mínútunum.

Á 37. mínútu fékk Liverpool umdeilt innkast. Þaðan barst boltinn á endanum til Mohamed Salah sem náði sér sterkri stöðu inni í teig Tottenham, gerði vel í að skýla boltanum, kom honum á Brasilíumanninn Roberto Firmino, sem að lokum afgreiddi boltann þéttingsfast í markið, 1:0.

Segja má að Liverpool hafi sett á sjálfstýringu í síðari hálfleiknum. Liðið skapaði ekki mikið af færum en hélt boltanum þrátt fyrir það vel. Tottenham skapaði aftur á móti tvö afar góð færi í síðari hálfleik og setti töluverða pressu á gestina undir lokin.

Þegar stundarfjórðungur var eftir tapaði Gini Wijnaldum boltanum á slæmum stað á miðjunni. Son fékk boltann rétt utan teigs en skaut yfir. Sjö mínútum síðar var það varamaðurinn Giovani Lo Celso sem skaut rétt fram hjá úr algjöru dauðafæri, eftir frábæra sendingu frá Serge Aurier.

Tottenham spilaði betur í síðari hálfleik enda þurfti liðið þá á marki að halda. Settu heimamenn þó nokkra pressu á lið Liverpool sem hélt aftur á móti út og landaði enn einum sigrinum.

Harry Winks í baráttu við Roberto Firmino, sem kom Liverpool …
Harry Winks í baráttu við Roberto Firmino, sem kom Liverpool í 1:0, og Georginio Wijnaldum. AFP
Tottenham 0:1 Liverpool opna loka
90. mín. Mohamed Salah (Liverpool) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert