Giroud að losna úr prísundinni

Olivier Giroud.
Olivier Giroud. AFP

Ítalska knattspyrnuliðið Inter er við það að kaupa franska landsliðsmanninn Olivier Giroud frá Chelsea en forráðamenn félaganna hittust í síðustu viku.

Það er Sky Sports sem greinir frá þessu en Giroud hefur verið úti í kuldanum hjá Frank Lampard, stjóra Chelsea, en hann hefur ekki spilað í ensku úrvalsdeildinni síðan í nóvember. Giroud er sagður vilja færa sig um set til að spila meira og halda sæti sínu í landsliðinu en Didier Deschamps landsliðsþjálfari Frakka hefur haldið tryggð við hann enn sem komið er.

Kaupverðið er talið vera um 4 milljónir punda en Giroud er 33 ára gamall. Hann kom til Chelsea í janúar 2018 frá Arsenal en hann hefur skorað 19 mörk fyrir liðið á þeim tíma.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert