Frá Mílanó til Birmingham

Pepe Reina er orðinn leikmaður Aston Villa.
Pepe Reina er orðinn leikmaður Aston Villa. Ljósmynd/Aston Villa

Enska knattspyrnufélagið Aston Villa hefur gengið frá lánssamningi við markvörðinn Pepe Reina sem gildir til loka leiktíðarinnar. Kemur hann til félagsins frá AC Mílan, þar sem hann hefur verið varamarkmaður Gianluigi Donnarumma síðustu ár.

Hinn 36 ára gamli Reina var í stúkunni er Villa tapaði fyrir Manchester City á laugardag, 1:6. Reina fær því væntanlega nóg að gera í marki nýliðanna, sem eru í fallsæti. 

Reina hefur aðeins spilað 13 leiki á síðustu tveimur leiktíðum, en hann gæti leikið sinn fyrsta leik fyrir Villa gegn Brighton á laugardag. 

Reina hef­ur leikið með stórliðum á borð við Barcelona, Li­verpool, Bayern München og svo AC Míl­an.

Ítalska félagið hefur gengið frá lánssamningi við Asmir Begovic frá Bournemouth og mun hann leysa Reina af hólmi út leiktíðina. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert