Burnley betra þegar Jóhann er með

Jóhann Berg Guðmundsson í leik með Burnley um jólin.
Jóhann Berg Guðmundsson í leik með Burnley um jólin. Ljósmynd/Burnley

Andy Jones, blaðamaður á íþróttafréttavefnum The Athletic, segir að það geti verið lykilatriði fyrir Burnley að Jóhann Berg Guðmundsson verði heill það sem eftir verður tímabilsins og gæti komið í veg fyrir að liðið félli úr ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu.

Jóhann Berg leikur nú sitt fjórða tímabil með Burnley í úrvalsdeildinni en hann hefur verið einstaklega óheppinn í vetur og meiðst þrisvar. Fyrir vikið hefur Jóhann aðeins náð að spila sjö af 22 leikjum liðsins í deildinni en Burnley hefur sigið niður töfluna undanfarnar vikur og er nú skammt frá fallsæti.

Í umfjöllun um Jóhann í dag segir The Athletic að Burnley virðist vera betra lið þegar Jóhann spilar. Þrátt fyrir að hann hafi spilað mun færri leiki en hinir sem hafa leikið í stöðu hægri kantmanns, hefur hann skapað fleiri marktækifæri en þeir, átt flestar fyrirgjafir og hitt oftast á samherja.

Sagt er að frammistaða Jóhanns gæti verið lykilatriði fyrir seinni hluta tímabilsins. Burnley sé hættulegra með hann innanborðs.

Jóhann meiddist á kálfa í ágúst eftir að hafa leikið þrjá fyrstu leiki tímabilsins og skorað strax í fyrstu umferðinni. Hann tognaði illa í læri í landsleik Íslands og Frakklands í október og eftir að hafa spilað þrjá leiki í deildinni um jólin þurfti hann að fara af velli í bikarleik gegn Peterborough um næstsíðustu helgi.

Sean Dyche, knattspyrnustjóri Burnley, sagði við The Athletic að meiðsli Jóhanns væru ekki alvarleg í þetta skipti en síðustu tvö ár hefðu verið erfið fyrir hann vegna þrálátra meiðsla.

mbl.is