Mata skaut United áfram

Juan Mata fagnar sigurmarkinu.
Juan Mata fagnar sigurmarkinu. AFP

Manchester United er komið áfram í 4. umferð enska bikarsins í fótbolta eftir 1:0-sigur á Wolves í endurteknum leik úr 3. umferðinni. Liðin skildu jöfn á heimavelli Wolves og þurftu því að mætast aftur. 

Eftir markalausan fyrri hálfleik skoraði Juan Mata sigurmarkið í seinni hálfleik er hann slapp einn í gegn og nýtti færið sitt afar vel eftir flottan undirbúning Anthony Martial. United mætir Watford eða C-deildarliðinu Tranmere í næstu umferð. 

Cardiff úr B-deildinni lenti í miklu basli með Carlisle úr D-deildinni. Carlisle komst yfir strax á sjöundu mínútu en Cardiff svaraði með næstu þremur mörkum.

Carlisle gafst ekki upp og minnkaði muninn í 3:2, áður en Cardiff komst í 4:2. Carlisle átti hins vegar lokaorðið og urðu lokatölur 4:3. 

mbl.is