Lygilegur viðsnúningur undir stjórn Klopp

Jürgen Klopp hefur búið til einn verðmætasta leikmannahóp í stjóratíð …
Jürgen Klopp hefur búið til einn verðmætasta leikmannahóp í stjóratíð sinni hjá Liverpool. AFP

Enska knattspyrnufélagið Liverpool er á hraðri leið með að tryggja sér sigur í ensku úrvalsdeildinni í fyrsta sinn í þrjátíu ár. Liverpool er með 61 stig og 14 stiga forskot á toppi deildarinnar. Þá á liðið leik til góða á Manchester City sem er í öðru sæti deildarinnar með 47 stig og Leicester kemur þar á eftir með 45 stig í þriðja sætinu.

Félagið hefur verið á uppleið síðan Þjóðverjinn Jürgen Klopp tók við stjórnartaumunum hjá félaginu í október 2015 eftir að Brendan Rodgers var látinn taka pokann sinn. Klopp skilaði sínum fyrsta titli í hús hjá félaginu síðasta vor þegar Liverpool varð Evrópumeistari eftir 2:0-sigur gegn Tottenham í úrslitaleik í Madrid.

Fyrir tímabilið 2015-16, þegar Klopp tók við, var leikmannahópur Liverpool metinn á 360 milljónir punda af viðskiptatímaritinu Forbes. Í dag er leikmannahópur liðsins hins vegar metinn á 1,83 milljarða punda en það er um 500% hækkun á fjórum árum. Þrátt fyrir þessa miklu hækkun hefur Klopp ekki fengið endalaust fjármagn til leikmannakaupa.

„Liverpool er ekki að kaupa neinar súperstjörnur, þeir eru að búa til súperstjörnur,“ lét Jamie Carragher, fyrrverandi leikmaður Liverpool, hafa eftir sér í viðtali á Sky Sports á dögunum. „Klopp hefur engan veginn fengið það hrós sem hann á skilið fyrir það sem hann hefur gert úr leikmönnum Liverpool,“ bætti Carragher við.

Þýski stjórinn hefur verið afar snjall þegar kemur að leikmannamarkaðnum en í janúar 2018 seldi Liverpool Philippe Coutinho til Barcelona fyrir 142 milljónir punda. Liverpool keypti Virgil van Dijk í sama glugga og markmanninn Alisson sumarið 2018. Bara þeir tveir hafa gjörbreytt ásýnd liðsins og gert það að alvörukeppinautum um alla þá titla sem í boði eru.

mbl.is