Jón Daði rak mikilvægt smiðshögg

Jón Daði Böðvarsson.
Jón Daði Böðvarsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Daði Böðvarsson og félagar í Millwall unnu mikilvægan 2:0-sigur á Reading í ensku B-deildinni í knattspyrnu til að halda sér í baráttunni um sæti í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð.

Millwall er nú með 44 stig í 7. sæti og aðeins fyrir utan umspilssæti á markatölu en liðin í 3.-6. sæti spila um að fara upp í úrvalsdeild með efstu tveimur liðum deildarinnar. Jón Daði byrjaði á varamannabekk Millwall í dag en kom inn á 79. mínútu á The Den og var ekki lengi að láta til sín taka gegn sínum gömlu félögum en hann var seldur frá Reading til Millwall síðasta sumar.

Staðan var 1:0 fyrir heimamönnum þökk sé marki frá Matt Smith á 71. mínútu en skömmu eftir að Jón Daði kom inn á skoraði hann annað markið til að innsigla sigurinn. Þetta var fyrsta deildarmarkið hans á tímabilinu en hann hefur komið við sögu í 18 leikjum af 28.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert