Stórslys fyrir Liverpool

Sadio Mané og Mohamed Salah eru að öllum líkindum báðir …
Sadio Mané og Mohamed Salah eru að öllum líkindum báðir á leið í Afríkukeppnina í janúar á næsta ári. AFP

Jürgen Klopp, knattspyrnustjóri Liverpool, er allt annað en sáttur við þá ákvörðun afríska knattspyrnusambandsins að færa Afríkubikarinn fram í janúar á nýjan leik. Mótið er haldið á tveggja ára fresti en það fór síðast fram árið 2019 að sumri til í Egyptalandi.

Mótið verður hins vegar í Kamerún í janúar 2021 við litla hrifningu Klopps en Mohamed Salah, Sadio Mané og Naby Keita munu allir taka þátt í mótinu ef allt gengur eftir. „Þetta er algjört stórslys fyrir Liverpool, svo einfalt er það,“ sagði Klopp á blaðamannafundi í gær.

„Í fyrsta lagi er enginn að fara kaupa leikmann sem mun missa af fjórum til fimm vikum í janúarmánuði. Það er samt sem áður tímaeyðsla að vera að tala um þetta og fólk talar um mig sem tuðarann frá Liverpool fyrir það eitt að nefna þetta.

Á meðan ekkert breytist og svona heimskulegar ákvarðanir halda áfram að líta dagsins ljós mun ég segja eitthvað. Þegar allt kemur til alls snýst þetta ekki um mig heldur leikmennina, sem þurfa sína hvíld,“ bætti Þjóðverjinn við.

mbl.is