Endurkoma til Liverpool?

Emre Can hefur aðeins byrjað tvo leiki í ítölsku A-deildinni …
Emre Can hefur aðeins byrjað tvo leiki í ítölsku A-deildinni á þessari leiktíð. AFP

Emre Can, miðjumaður ítalska knattspyrnufélagsins Juventus, gæti verið að snúa aftur til Liverpool en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Can mun hins vegar ekki ganga til liðs við rauðliðanna í Liverpool heldur vill Carlo Ancelotti, nýráðinn stjóri Everton, fá Can til bláliðanna í Bítlaborginni en miðjumaðurinn er sagður efstur á óskalista Ancelotti.

Ancelotti vill fá miðjumann sem getur stýrt spilinu á miðsvæðinu og Ítalinn sér Can sem arftaka á miðsvæðinu fyrir Andre Gomes sem fótbrotnaði illa fyrir áramót. Verðmiðinn á Can er í kringum 30 milljónir punda en hann kom til Juventus á frjálsri sölu frá Liverpool sumarið 2019. Can fær hins vegar ekkert að spila hjá Juventus undir stjórn Maurizio Sarri.

Þýski miðjumaðurinn hefur aðeins byrjað tvo leiki í ítölsku A-deildinni á tímabilinu og þá var hann ekki valinn í Meistaradeildarhóp Juventus síðasta haust. Can var meðal annars orðaður við Manchester United síðasta sumar en hann vildi ekki fara á Old Trafford af virðingu við Liverpool. Það verður því forvitnilegt að sjá hvort hann sé tilbúinn að spila fyrir Everton, nágranna Liverpool.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert