Reyna að sannfæra Pogba um endurkomu?

Paul Pogba hefur aðeins byrjað fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni …
Paul Pogba hefur aðeins byrjað fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. AFP

Paul Pogba, miðjumaður enska knattspyrnufélagsins Manchester United, hefur verið orðaður við brottför frá félaginu að undanförnu. Pogba hefur verið mikið meiddur á þessari leiktíð en hann hefur aðeins byrjað fimm leiki í ensku úrvalsdeildinni á tímabilinu þar sem hann hefur lagt upp tvö mörk fyrir liðsfélaga sína.

Pogba er eftirsóttur á Ítalíu og Spáni en ítalskir fjölmiðlar greina frá því að hans fyrrverandi liðsfélagar hjá Juventus reyni nú að sannfæra hann um að snúa aftur til Ítalíu. Pogba lék með Juventus á árunum 2012 til ársins 2016 þar sem hann sló í gegn. Hann var svo keyptur til United sumarið 2016 fyrir tæplega 90 milljónir punda.

Juan Cuadrado, Paulo Dybala og Gonzalo Higuaín eru þeir leikmenn sem eru sagðir þrýsta fast á leikmanninn að snúa aftur til Ítalíu samkvæmt Tuttosport. Pogba er sjálfur sagður opinn fyrir því að komast til Juventus á nýjan leik þar sem hann varð fjórum sinnum Ítalíumeistari. Þá er hann einnig opinn fyrir því að ganga til liðs við Real Madrid samkvæmt fréttum á Englandi.

mbl.is