Á hvaða velli tryggir Liverpool sér titilinn?

Jürgen Klopp fagnar Mohamed Salah eftir sigur Liverpool á Manchester …
Jürgen Klopp fagnar Mohamed Salah eftir sigur Liverpool á Manchester United í gær. AFP

Eftir hina mögnuðu sigurgöngu Liverpool í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu er umræðan hætt að snúast um hvort liðið verði loksins enskur meistari eftir þrjátíu ára bið, heldur hvenær það tryggi sér meistaratitilinn og hvar.

Liverpool er með 64 stig af 66 mögulegum eftir sigurinn á Manchester United í gær, 2:0, sextán stigum meira en Manchester City sem gerði 2:2 jafntefli við Crystal Palace á heimavelli á laugardaginn.

BBC hefur farið rækilega yfir stöðuna og fræðilega séð gæti Liverpool orðið meistari þegar liðið heimsækir Watford á hlaupársdag, 29. febrúar. Það er þó langsóttasti möguleikinn því til þess þarf Liverpool að vinna alla sína leiki en Manchester City að tapa öllum sínum fimm leikjum, ásamt því að Leicester þyrfti að tapa flestum sínum.

Raunhæfari möguleiki er að Liverpool fagni titlinum á heimavelli nágranna sinna Everton, Goodison Park, 14. mars. Það gæti gerst ef bilið á milli Liverpool og City heldur áfram að breikka og væri orðið á bilinu 23-25 stig þegar að þeim leik kemur.

En sennilega eru líkurnar einna mestar á að það gæti gerst 4. apríl þegar Liverpool heimsækir Manchester City á Etihad-leikvanginn. Ef bæði lið vinna alla sína leiki fram að þeirri viðureign, sem þau gætu hæglega gert, væri Liverpool komið með 91 stig gegn 72 stigum City þegar flautað væri til leiks en eftir þann leik væri sex umferðum ólokið og átján stig í pottinum.

Frá stofnun úrvalsdeildarinnar eiga Manchester-liðin tvö metið í að tryggja sér titilinn snemma en United varð meistari 2001 þegar liðið átti fimm leikjum ólokið og City jafnaði það vorið 2018. Manchester United hefur orðið meistari fyrr á árinu en nokkurt annað lið frá stofnun úrvalsdeildarinnar en United varð meistari 14. apríl árið 2001.

Hvað sem gerist er alveg öruggt að tíu sigrar í sextán leikjum munu nægja Liverpool, hvað sem önnur lið gera og eftir 21 sigur í 22 leikjum til þessa er ljóst að það þyrfti gríðarlega niðursveiflu til þess að Jürgen Klopp og hans menn myndu klúðra titlinum úr höndum sér. Það yrðu óvæntustu tíðindin í sögu enska fótboltans til þessa, er nánast óhætt að fullyrða.

mbl.is