Manchester United fær á sig kæru eftir Liverpool-leikinn

Craig Pawson sýnir David de Gea gula spjaldið eftir mótmæli …
Craig Pawson sýnir David de Gea gula spjaldið eftir mótmæli leikmanna Manchester United. AFP

Enska knattspyrnusambandið hefur kært Manchester United fyrir að sjá ekki til þess að leikmenn liðsins sýndu sæmandi framkomu þegar atvik átti sér stað í fyrri hálfleik tapleiksins gegn Liverpool í úrvalsdeildinni á Anfield síðasta sunnudag.

Leikmenn United brugðust þá illa við þegar Craig Pawson dómari ákvað að mark sem Roberto Firmino skoraði, eftir að Virgil van Dijk stökk upp með David de Gea markverði, skyldi standa. Myndbandadómarinn sneri síðan úrskurði Pawsons við og markið var dæmt af.

Manchester United hefur fengið frest til fimmtudags til að svara fyrir kæruna.

mbl.is