Enn meiðast ensku framherjarnir

Tammy Abraham liggur meiddur úti við auglýsingaskilti á Stamford Bridge …
Tammy Abraham liggur meiddur úti við auglýsingaskilti á Stamford Bridge og leikmenn beggja liða huga að honum. AFP

Tammy Abraham, sóknarmaður Chelsea og markahæsti leikmaður liðsins í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í vetur, fór meiddur af velli í gærkvöld þegar lið hans gerði jafntefli, 2:2, við Arsenal í bráðfjörugum leik á Stamford Bridge.

Abraham meiddist á ökkla en ekki liggur fyrr enn hversu alvarleg meiðslin eru eða hve lengi hann verður frá keppni. Hann hefur skorað 13 mörk og er sjötti markahæsti leikmaður úrvalsdeildarinnar það sem af er tímabilinu.

Þar með eru þrír enskir landsliðsframherjar meiddir en þegar liggur fyrir að Harry Kane spilar ekki meira með Tottenham á tímabilinu og hætta er á að Marcus Rashford nái ekki að spila með Manchester United fyrr en næsta vetur. Þetta er áhyggjuefni fyrir enska landsliðið sem er á leið í lokakeppni EM í sumar en Abraham spilaði fyrstu mótsleiki sína með landsliðinu í haust í kjölfarið á frábærri byrjun með Chelsea í úrvalsdeildinni.

mbl.is