Son kom Tottenham til bjargar

Son Heung-min skoraði sigurmark Tottenham.
Son Heung-min skoraði sigurmark Tottenham. AFP

Tottenham vann nauman 2:1-sigur á Norwich í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld. Heung-min Son skoraði sigurmarkið á 79. mínútu.

Dele Alli kom Tottenham yfir á 38. mínútu með eina marki fyrri hálfleiks, en Teemu Pukki jafnaði á 70. mínútu úr vítaspyrnu. Tottenham átti hins vegar síðasta orðið því Son skoraði á 79. mínútu og þar við sat.

Tottenham fór upp í 34 stig og sjötta sætið með sigrinum, en Norwich er á botninum með 17 stig. 

Leicester komst aftur á sigurbraut er liðið fór illa með West Ham á heimavelli, 4:1. Harvey Barnes og Ricardo Pereira komu Leicester í 2:0 í fyrri hálfleik, en Mark Noble minnkaði muninn úr víti snemma í seinni hálfleik. 

Á 81. mínútu var komið að Leicester að fá víti og úr því skoraði Ayoze Pérez. Spánverjinn var svo aftur á ferðinni á 88. mínútu er hann skoraði annað markið sitt og fjórða mark Leicester.

Leicester er í þriðja sæti með 48 stig og West Ham í 17. sæti með 23 stig, eins og Bournemouth og Watford sem eru í fallsæti.  

Leicester vann góðan sigur á West Ham.
Leicester vann góðan sigur á West Ham. AFP
mbl.is