Firmino tryggði fjórtánda sigurinn í röð

Jordan Henderson kemur Liverpool yfir með skalla á 8. mínútu …
Jordan Henderson kemur Liverpool yfir með skalla á 8. mínútu í leiknum í kvöld. AFP

Liverpool komst í hann krappan í kvöld en náði að knýja fram 2:1 sigur á Wolves á útivelli í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu þar sem Roberto Firmino skoraði sigurmarkið á 84. mínútu.

Liverpool náði þar með sextán stiga forystu í deildinni á ný, er með 67 stig eftir 23 leiki en Manchester City er með 51 stig eftir 24 leiki. Wolves er áfram í 7. sæti með 34 stig.

Liverpool komst yfir strax á 8. mínútu leiksins þegar Jordan Henderson skoraði með skalla eftir hornspyrnu frá Trent Alexander-Arnold. Tíunda stoðsending bakvarðarins í deildinni í vetur.

Raúl Jiménez jafnaði metin á 51. mínútu eftir vel útfærða skyndisókn þegar hann skallaði boltann óverjandi niður í vinstra hornið eftir fyrirgjöf Adama Traoré frá hægri, 1:1. Fyrsta markið sem Liverpool fékk á sig í átta leikjum í deildinni og samtals í 725 leikmínútur.

Eftir færi á báða bóga þar sem Úlfarnir voru á köflum líklegir til að verða fyrsta liðið til að sigra Liverpool í deildinni í meira en eitt ár fékk Firmino boltann frá Jordan Henderson og sendi hann upp í vinstra hornið með fallegu skoti.

Diogo Jota fékk dauðafæri til að jafna fyrir Wolves í uppbótartímanum en skóflaði boltanum yfir mark Liverpool af markteig.

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Wolves 1:2 Liverpool opna loka
90. mín. Leik lokið Liverpool knýr fram fjórtánda sigurinn í röð af mikilli seiglu!
mbl.is