Fyrirliðinn til Barcelona?

Pierre-Emerick Aubameyang hefur verið algjör lykilmaður í liði Arsenal síðan …
Pierre-Emerick Aubameyang hefur verið algjör lykilmaður í liði Arsenal síðan hann kom frá Dortmund. AFP

Pierre-Emerick Aubameyang, fyrirliði enska knattspyrnufélagsins Arsenal, er sagður tilbúinn að ganga til liðs við stórlið Barcelona í janúar en það eru spænskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Aubameyang var fyrst orðaður við spænsku meistarana í byrjun janúar en framherjinn var fljótur að blása á þær sögusagnir.

Mundo Deportivo greinir hins vegar frá því að Aubameyang sé nú tilbúinn að fara til Spánar en gengi Arsenal á leiktíðinni hefur verið afar dapurt. Liðið er í tíunda sæti deildarinnar með 30 stig og er tíu stigum frá Meistaradeildarsæti. Arsenal er hins vegar komið áfram í 32-liða úrslit Evrópudeildarinnar en Aubameyang vill spila í Meistaradeildinni.

Aubameyang kom til Arsenal frá Borussia Dortmund í janúar 2018 en Arsenal borgaði tæplega 60 milljónir punda fyrir leikmanninn. Hann verður samningslaus sumarið 2021 og hefur ekki viljað skrifa undir nýjan samning við félagið. Hann gæti því farið frítt frá félaginu þar næsta sumar, fari svo að hann neiti að skrifa undir nýjan samning.

Arsenal gæti því freistast til að selja framherjann á meðan liðið fær góða upphæð fyrir hann en hann verður 31 árs gamall í júní. Aubameyang hefur verið lykilmaður í liði Arsenal frá því hann kom frá Dortmund en hann hefur skorað 57 mörk í 91 leik fyrir félagið í öllum keppnum, ásamt því að leggja upp 13 mörk.

mbl.is