Hvers vegna er Klopp ekki í jakkafötum á hliðarlínunni?

Æfingabuxur, úlpa og derhúfa er staðalbúnaðurinn hjá Jürgen Klopp á …
Æfingabuxur, úlpa og derhúfa er staðalbúnaðurinn hjá Jürgen Klopp á hliðarlínunni. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool kveðst ekki hafa tíma til að velta fyrir sér hverju hann eigi að klæðast þegar hann stjórnar liðinu af hliðarlínunni. Þess vegna sé hann nær alltaf í æfingagalla á leikjunum og stundum í úlpu þegar kalt er í veðri.

Klopp var í ítarlegu viðtali hjá Sky Sports í vikunni og þar var hann m.a. spurður út í klæðnað sinn á leikjum en margir knattspyrnustjórar enskra liða hafa það fyrir sið að klæðast jakkafötum þegar þeir stýra liðum sínum.

„Ég er ekki hrifinn af því. Ég kann vel við jakkaföt þegar þau eiga við. Þetta segi ég ekki af virðingarleysi því ég veit að margir, sérstaklega á Englandi, klæðast þeim vegna þess að leikdagur er alltaf sérstakur dagur. En ég hef ekki tíma til að spá í hvað ég á að taka með mér á völlinn. Ég er bara ekki þannig, ég hef um margt annað að hugsa á leikdegi,“ sagði Klopp.

„Þetta virkar bara ekki fyrir mig. Þegar ég kom til Dortmund á sínum tíma reyndi ég þetta, ekki að fara í jakkaföt heldur mæta í t.d. svartri skyrtu og gallabuxum. En síðan gleymdi ég mér, var ekki með neitt nema æfingagalla við höndina, og hætti að hugsa um annað. Svo sér  félagið um að æfingagalli sé til staðar í búningsklefanum, það er í raun lykilatriðið,“ sagði Jürgen Klopp.

Hann hefur áður sagt í viðtali að hann færi í jakkafötum í brúðkaup og jarðarfarir, og þegar sér væri sagt að hann yrði að vera í jakkafötum. „Mér finnst ekki þægilegt að vera í þeim, ég get ekki fengið almennilega útrás með bindi eða slaufu,“ sagði Klopp í viðtali við Talksport í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert