Liverpool í fjörutíu leikja klúbbinn

Roberto Firmino skorar sigurmark Liverpool á Molineux í kvöld.
Roberto Firmino skorar sigurmark Liverpool á Molineux í kvöld. AFP

Liverpool varð í kvöld fjórða liðið í sögu efstu deildar enska fótboltans til að spila fjörutíu leiki í röð án þess að tapa þegar liðið vann Wolves 2:1 á útivelli.

Arsenal á metið en Lundúnaliðið lék 49 leiki í röð án þess að tapa á árunum 2003 og 2004.

Nottingham Forest kemur næst en liðið frá Skírisskógi tapaði ekki í 42 leikjum í röð á árunum 1977 og 1978.

Chelsea varð þriðja liðið til að ná þessu marki á árunum 2004 og 2005, með Eið Smára Guðjohnsen innanborðs, en þá tapaði það ekki í 40 leikjum í röð.

Liverpool er nú komið með 40 leiki frá því liðið tapaði fyrir Manchester City í ársbyrjun 2019 og þar af eru 35 sigurleikir en aðeins fimm jafntefli.

mbl.is