Ósigurinn sem breytti öllu hjá Liverpool

Sadio Mané fagnar marki sínu gegn Real Madrid í úrslitum …
Sadio Mané fagnar marki sínu gegn Real Madrid í úrslitum Meistaradeildarinnar vorið 2018. AFP

Sadio Mané, sóknarmaður enska knattspyrnufélagsins Liverpool, segir að liðið ætli sér sigur í bæði Meistaradeildinni og í ensku úrvalsdeildinni á þessari leiktíð. Það er ekkert sem stoppar topplið ensku úrvalsdeildarinnar þessa dagana en Liverpool er með 64 stig í efsta sæti deildarinnar. Manchester City er í öðru sætinu með 51 stig en Liverpool á tvo leiki til góða á City.

„Vissulega höfum við gert frábæra hluti á þessari leiktíð,“ sagði Mané í samtali við heimasíðu félagsins. „Það þýðir samt ekki að við séum hættir og við ætlum okkur stóra hluti. Við viljum vinna titla, úrvalsdeildina og Meistaradeildina, en við gerum okkur grein fyrir því að það verður ekki auðvelt. Við erum hins vegar allir að róa í sömu átt og við erum gríðarlega samstiga í því að á árangri.“

„Það hefur sýnt sig á undanförnum árum að það er allt hægt í þessu og við trúum því að við getum unnið Meistaradeildina annað árið í röð sem dæmi. Við erum hungraðir í árangur og við erum tilbúnir að taka þetta aukaskref sem þarf oft til þess að ná árangri. Ég held að það hafi allt breyst hjá félaginu eftir tapið gegn Real Madrid í úrslitum Meistaradeildarinnar í Kiev, vorið 2018.“

„Það var þá sem við áttuðum okkur einhvern veginn á því að það væri allt hægt og að við værum fullfærir um að ná árangri. Við vorum með ungt lið á þeim tíma og kannski vantaði líka upp á reynsluna. Það hefur hins vegar breyst og við erum reynslunni ríkari. Það er meiri trú í hópnum og við sýndum það ári síðar í Madrid þegar við urðum Evrópumeistarar,“ bætti Senegalinn við.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert