Snýr hann aftur eftir ellefu ára fjarveru?

Það yrði eitthvað ef Carlos Tevez myndi snúa aftur á …
Það yrði eitthvað ef Carlos Tevez myndi snúa aftur á Old Trafford í janúar. AFP

Carlos Tevez gæti verið að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina í knattspyrnu en það eru fjölmiðlar á Ítalíu sem greina frá þessu. Tevez er orðinn 35 ára gamall en Manchester United íhugar nú að fá Tevez að láni frá Boca Juniors til þess að fylla skarð Marcus Rashford sem verður frá næstu þrjá mánuðina vegna meiðsla í baki.

Tevez þekkir vel til hjá Manchester United eftir að hafa spilað með liðinu á árunum 2007 til ársins 2009. Hann varð tvívegis Englandsmeistari með liðinu, 2008 og 2009, og þá varð hann Evrópumeistari með United árið 2008. Alls lék hann 99 leiki fyrir félagið þar sem hann skoraði 34 mörk og lagði upp önnur 14.

Árið 2009 yfirgaf Tevez United og gekk til liðs við nágrannana í Manchester City við litla hrifningu stuðningsmanna United. Hjá City var hann meðal annars gerður að fyrirliða liðsins en hann varð Englandsmeistari með liðinu árið 2012 og bikarmeistari vorið 2011. Hann lék síðast í Evrópu með Juventus frá 2013 til 2015 en hefur síðan leikið í Asíu og Suður-Ameríku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert