Þurfti töfra frá Bobby til að vinna þennan leik

Roberto Firmino fagnar sigurmarkinu í kvöld.
Roberto Firmino fagnar sigurmarkinu í kvöld. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool sagði að það hefði þurft töfra til að knýja fram torsóttan sigur á Wolves í ensku úrvalsdeildinni í kvöld og Roberto Firmino hefði búið yfir þeim.

„Í svona leikjum þarf að finna leið til þess að sigra og vera með einhvern sem getur tekið hárrétta ákvörðun, og það gerði Bobby enn og aftur,“ sagði Klopp en Liverpool hefur þar með leikið 40 leiki í röð í deildinni án taps undir hans stjórn.

„Við skoruðum gullfallegt mark, héldum boltanum oft frábærlega, en Úlfarnir eru svo vel skipulagðir hvernig þeir sækja hratt og nýta vel breidd vallarins. Við breyttum um leikskipulag tvisvar eða þrisvar og reyndum að róa leikinn. Við fengum ótrúleg færi í fyrri hálfleik en í lokin voru það töfrar frá Bobby sem færðu okkur sigurinn,“ sagði Klopp við BBC.

Hann var spurður um meiðslin hjá Sadio Mané sem fór af velli eftir rúmlega hálftíma leik. „Þetta var synd með Sadio en vonandi er þetta ekki slæmt, bara smá vöðvatognun, en það kemur betur í ljós á morgun,“ sagði Klopp og hrósaði Adama Traoré, kantmanni Úlfanna, sérstaklega, en hann lagði upp jöfnunarmark þeirra.

„Stundum er hann alveg óviðráðanlegur — alveg ótrúlegur. Þvílíkur leikmaður, ekki bara hann, en hann er bara svo góður,“ sagði Klopp um Traoré sem hefur átt mjög góða leiki með Úlfunum síðustu vikurnar.

mbl.is