Býst ekki við brothættu United-liði í bikarleiknum

Fred og félagar í Manchester United hafa átt á brattann …
Fred og félagar í Manchester United hafa átt á brattann að sækja í úrvalsdeildinni. Nú mæta þeir Tranmere í bikarnum. AFP

Tranmere Rovers komst óvænt í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu í gærkvöld með því að slá út úrvalsdeildarliðið Watford og fær nú heldur betur spennandi heimaleik á sunnudaginn þegar liðið tekur á móti Manchester United.

Micky Mellon, knattspyrnustjóri Tranmere, kveðst afar spenntur fyrir því að fá þetta fræga lið á Prenton Park í borginni Birkenhead, sem er í útjaðri Liverpool, en horfir ekki á það sem gott tækifæri til að klekkja á liði Manchester United vegna vandræðanna sem liðið er í þessa dagana í úrvalsdeildinni.

Mellon sagði við The Guardian að hann ætti ekki von á að United væri sérstaklega brothættur mótherji á þessari stundu þótt liðið sé gagnrýnt harkalega þessa dagana eftir tvö töp í röð og slæman ósigur fyrir Burnley á heimavelli á miðvikudagskvöldið.

„Nei, alls ekki. Þetta er stórkostlegt knattspyrnufélag og mun nálgast þennan leik af fagmennsku. Ég sá hvernig það er þegar ég var með Shrewsbury, þeir komu þangað eins og vélmenni, unnu sitt verk og hurfu á braut. Ég veit að það er ógnin sem við stöndum frammi fyrir.

Við verðum að vera raunsæir. Manchester United er magnað félag og við erum C-deildarlið, sem er í botnbaráttu, en við munum gefa allt okkar í leikinn. Við reynum að vera félaginu áfram til sóma og leikmennirnir munu gera sitt allra besta og hver veit hverju það skilar?“ sagði Micky Mellon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert