„Klopp fékk fjögur ár, gefið mér tíma“

Ole Gunnar Solskjær vill fá tíma til þess að byggja …
Ole Gunnar Solskjær vill fá tíma til þess að byggja upp lið á Old Trafford. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, hefur kallað eftir þolinmæði á Old Trafford eftir slakt gengi liðsins að undanförnu. Það er mikil pressa á Norðmanninum um þessar mundir eftir slæmt 2:0-tap gegn Burnley í ensku úrvalsdeildinni í vikunni en United er í fimmta sæti deildarinnar með 34 stig, sex stigum frá Meistaradeildarsæti eftir 24 umferðir.

„Við erum með ákveðið plan um það hvernig við viljum byggja upp þetta lið,“ sagði Solskjær á blaðamannafundi í morgun. „Ef þú horfir á önnur lið eins og til dæmis Liverpool þá sér maður hversu vel þeir hafa gert í sínum áætlunm en það tók þá líka fjögur ár að byggja upp lið á Anfield sem getur barist um titla.“

„Ég hef sagt það margoft áður að vandamál félagsins verður ekki leyst í einum grænum. Það mun taka tíma og við erum ekki að fara að kaupa tíu nýja leikmenn í hverjum félagaskiptaglugga. Janúarglugginn er alltaf erfiður því félög vilja ekki missa leikmenn í miðjum glugga en við erum að reyna eins og við getum að styrkja hópinn.“

„Þegar að þú byrjar á einhverju þá þarftu að vera með ákveðið plan og ég er að fylgja því eftir. Ég mun ekki víkja frá mínu plani eftir tíu mánuði í starfi. Mér var treyst til þess að stýra félaginu og ég mun halda áfram á þeirri vegferð sem ég er á. Klopp fékk fjögur ár, gefið mér tíma líka,“ bætti norski stjórinn við.

mbl.is