Neita neikvæðu andrúmslofti í röðum Tottenham

Son Heung-min og José Mourinho ræða málin á hliðarlínunni hjá …
Son Heung-min og José Mourinho ræða málin á hliðarlínunni hjá Tottenham. AFP

Erik Dier, miðjumaður Tottenham, segir að ekki sé neinn fótur fyrir fréttum um að neikvætt andrúmsloft ríki í herbúðum liðsins og það skrifist á knattspyrnustjórann José Mourinho sem tók við liðinu í nóvember.

Tottenham fór vel af stað undir hans stjórn, skoraði sextán mörk í fimm leikjum og vann fjóra þeirra, en hefur síðan verið í basli og innbyrta fáa sigra síðustu vikur. Enskir fjölmiðlar hafa fjallað talsvert um að leikmenn liðsins séu þegar orðnir þreyttir á Portúgalanum.

„Liðsandinn hefur verið einn af okkar styrkleikum og ég tel að svo sé enn þá. Ég held að allir hafi æft mjög vel, lagt hart að sér og notið sín á sama hátt og áður. Þetta er eins hjá öllum liðum þegar illa gengur, það er engin gleði yfir því. En andrúmsloftið er engan veginn neikvætt,“ sagði Dier við BBC.

Í einu blaðanna var skrifað um að æfingarnar hjá Tottenham væru eins og í neðri deildunum en Dier tók ekki undir það. „Hver segir það? Þið vitið þetta kannski allt saman en ekki ég. Sjálfur hef ég notið þess að æfa hjá Mourinho, ég nýt þess að breyta til,“ sagði Dier.

Fyrirliðinn og markvörðurinn Hugo Loris tók undir orð hans. „Hjá okkur ríkir frábær andi, allir okkar leikmenn eru tilbúnir til að sameinast í baráttunni fyrir félagið, nýja stjórann og hans starfslið. Við höfum enga stjórn á hvað þið segið en ég staðfesti að andrúmslofti hjá okkur er mjög jákvætt og við göngum einbeittir til allra verka,“ sagði Lloris sem lék á ný í markinu eftir þriggja ára fjarveru þegar Tottenham vann Norwich 2:1 í fyrrakvöld.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert