Stundum rignir og þá vildi maður að þakið væri komið

Ole Gunnar Solskjær hefur mátt þola mikla gagnrýni síðustu daga.
Ole Gunnar Solskjær hefur mátt þola mikla gagnrýni síðustu daga. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að það sé engin töfraformúla til staðar til að koma liðinu aftur í titilbaráttu. Það sé uppbygging sem taki sinn tíma.

„Við vinnum á skipulagðan hátt. Auðvitað sjáum við önnur lið gera það gott. Jürgen Klopp hefur verið fjögur ár að byggja upp sitt lið og nú blómstra þeir. Eins og ég hef margoft sagt er þetta ekki gert með því að smella fingrum,“ sagði Solskjær á fréttamannafundi í morgun.

„Við munum heldur ekki kaupa átta til tíu leikmenn í einum félagaskiptaglugga. Við vorum með einn alvöruglugga í sumar, janúarmánuður er alltaf mun erfiðari en við erum samt að reyna að styrkja okkur eitthvað núna,“ sagði Solskjær sem hefur verið harkalega gagnrýndur eftir tvo tapleiki í röð, gegn Liverpool og Burnley.

„Þegar maður setur áætlun í gang fer maður eftir henni. Ég ætla ekki að rjúka til núna og fara að breyta öllu. Ég mun halda mig við þá áætlun sem ég fór af stað með og vonandi dugar það. Ég hef ekki átt neitt nema jákvæðar viðræður við forráðamenn félagsins. Ég tel að stuðningsmenn okkar séu meðvitaðir um hvað við erum að reyna að gera. Svona endurbygging gengur ekki alltaf eftir beinni braut. Við erum á mjög góðri leið, það hef ég alltaf sagt. Maður verður fyrst að leggja grunninn — það er ekki hægt að byrja á því að byggja þakið. Stundum rignir, og þá vildi maður að þakið væri komið, en þá er ekkert skjól,“ sagði Solskjær á fundinum.

Manchester United hélt fimmta sætinu í deildinni þrátt fyrir ósigurinn gegn Burnley í fyrrakvöld og liðið sækir C-deildarlið Tranmere Rovers heim í bikarkeppninni á sunnudaginn.

mbl.is