Krónprins vill kaupa Newcastle

Newcastle gæti loks verið að fara finna nýjan eiganda.
Newcastle gæti loks verið að fara finna nýjan eiganda. AFP

Fjárfestingahópur frá Sádi-Arabíu er nú í viðræðum við Mike Ashley, eiganda enska úrvalsdeildarfélagsins Newcastle, um kaup á félaginu en Sky Sports staðfesti þessar fregnir í dag.

Fyrstu fréttir um hugsanlega sölu félagsins birtust í Wall Street Journal og kom þar fram að krónprins Sádi-Arabíu, Múhameð bin Salman, og breska fjármálakonan Amanda Staveley hefðu tekið saman höndum um að kaupa félagið.

Staveley reyndi án árangurs að kaupa Newcastle fyrir tveimur árum en Ashley hefur margoft reynt að selja félagið. Ashley keypti Newcastle árið 2007 fyrir um 134 milljónir punda en hann er sagður vilja selja það fyrir 340 milljónir.

Newcastle hefur fallið úr úrvalsdeildinni í tvígang síðan Ashley tók yfir fyrir 13 árum og þá hafa stuðningsmenn félagsins mótmælt eignarhaldinu margoft.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert