Leicester áfram í 16-liða úrslit

Julian Jeanvier sækir að Leicester-manninum Marc Albrighton í leiknum í …
Julian Jeanvier sækir að Leicester-manninum Marc Albrighton í leiknum í dag. AFP

Leicester er komið í 16-liða úrslit ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu eftir 1:0-sigur á Brentford á Griffin Park í dag.

Úrvalsdeildarliðið tefldi ekki fram sínu sterkasta liði í dag en var þó aðeins fjórar mínútur að brjóta ísinn. Sóknarmaðurinn Kelechi Iheanacho skoraði eftir stoðsendingu Justins James en heimamenn, sem leika í B-deildinni, koðnuðu þó ekki niður eftir slæma byrjun.

Leikmenn Brentford pressuðu stíft á lokakafla leiksins og náðu meira að segja að kreista boltann inn í mark Leicester nokkrum mínútum fyrir leikslok þegar Bryan Mbeumo skoraði af stuttu færi eftir hornspyrnu. Markið var þó réttilega dæmt af vegna rangstöðu.

Leicester er því komið í 16-liða úrslitin ásamt Sheffield Wednesday en tíu leikir fara fram í dag áður en 32-liða úrslitunum lýkur með viðureign Bournemouth og Arsenal á mánudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert