Manchester United skoraði sex

Leikmenn United fagna einu marka sinna á Prenton Park í …
Leikmenn United fagna einu marka sinna á Prenton Park í dag. AFP

Manchester United er komið áfram í 16-liða úrslit ensku bikarkeppninnar í knattspyrnu eftir öruggan 6:0-sigur á Tranmere Rovers á Prenton Park í dag.

Staðan var orðin 5:0 í hálfleik en þetta var í fyrsta sinn í 19 ár sem United tekst að skora fimm mörk í fyrri hálfleik. Miðvörðurinn og fyrirliðinn Harry Maguire braut ísinn strax á 10. mínútu með glæsilegu marki þegar hann þrumaði boltanum upp í fjærhornið utan teigs og aðeins þremur mínútum síðar var staðan orðin 2:0 er Diogo Dalot átti bylmingsskot í markið. Jesse Lingard bætti við þriðja markinu á 16. mínútu og voru úrslitin þá strax ráðin.

Phil Jones skallaði inn fjórða markið eftir hornspyrnu og Anthony Martial skoraði það fimmta rétt fyrir hálfleik. United gerði tvær breytingar strax í hálfleik og bætti svo við marki á 56. mínútu þegar varamaðurinn Tahith Chong nældi í vítaspyrnu. Mason Greenwood skoraði úr henni af öryggi, lokatölur 6:0.

Það verður dregið í 16-liða úrslit á mánudaginn en lið á borð við Manchester United, Chelsea, Leicester og Manchester City verða í pottinum. Liverpool mætir Shrewsbury síðar í dag og þá á Tottenham eftir að mæta Southampton í öðrum leik til að komast að því hvort liðið kemst áfram.

mbl.is