Úrvalsdeildarlið hefur áhuga á Hólmari Erni

Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með Levski.
Hólmar Örn Eyjólfsson í leik með Levski. Ljósmynd/Levski Sofia

Hólmar Örn Eyjólfsson, landsliðsmaður í knattspyrnu, er í sigtinu hjá félagi í ensku úrvalsdeildinni en hann hefur leikið gríðarlega vel í búlgörsku A-deildinni með Levski Sofia í vetur.

Vefmiðillinn 90min greinir frá þessu og segir að Bournemouth íhugi að bjóða í Hólmar áður en félagsskiptaglugganum verður lokað nú um mánaðamótin. Bournemouth, undir stjórn Eddie Howe, er í mikilli fallbaráttu í úrvalsdeildinni og hefur liðið fengið á sig 37 mörk og situr í fallsæti eftir 24 umferðir.

Hólmar er einn þeirra leikmanna sem njósnarar Bournemouth telja að gæti bætt varnarleik liðsins en hann er 29 ára gamall og hefur leikið 14 landsleiki fyrir Ísland. Hann var á mála hjá West Ham á Englandi á árunum 2008 til 2011 en spilaði þó aldrei með aðalliðinu. Hann var að láni hjá Cheltenham Town í C-deildinni og spilaði þar fjóra leiki en lék síðan með Roeselare í Belgíu, Bochum í Þýskalandi, Rosenborg í Noregi og Maccabi Haifa í Ísrael en hefur leikið með Levski Sofia frá 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert