Á leið í ensku úrvalsdeildina?

Emre Can er til sölu fyrir rétta upphæð.
Emre Can er til sölu fyrir rétta upphæð. AFP

Emre Can, miðjumaður ítalska knattspyrnufélagsins Juventus, gæti verið að snúa aftur í ensku úrvalsdeildina en það eru enskir fjölmiðlar sem greina frá þessu. Can gekk til liðs við Juventus á frjálsri sölu sumarið 2018 eftir fjögur ár í herbúðum Liverpool. Can hefur hins vegar fengið fá tækifæri með Juventus síðan Maurizio Sarri tók við stjórnartaumunum hjá félaginu síðasta sumar.

Can hefur aðeins byrjað tvo leiki í ítölsku A-deildinni á tímabilinu og þá hefur hann sex sinnum komið inn á sem varamaður. Hann var ekki valinn í meistaradeildarhóp Juventus en ítalska félagið er sagt vilja fá í kringum 25 milljónir punda fyrir miðjumanninn þýska sem er nýorðinn 26 ára gamall.

Manchester United og Arsenal hafa bæði mikinn áhuga á leikmanninum og þá eru Bayern München og Borussia Dortmund einnig áhugasöm. Enskir fjölmiðlar greina hins vegar frá því að Can þéni í kringum 250.000 pund á viku hjá Juventus en það eru launatölur sem hafa fælt mörg félög frá því að leggja fram tilboð í leikmanninn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert