Klopp með liðið í vetrarfríi - unglingalið í seinni bikarleiknum

Curtis Jones í baráttunni gegn Shrewsbury í gær þar sem …
Curtis Jones í baráttunni gegn Shrewsbury í gær þar sem hann skoraði fyrra mark Liverpool í 2:2 jafntefli. AFP

Jürgen Klopp knattspyrnustjóri Liverpool ætlar að tefla fram unglingaliði þegar félagið mætir Shrewsbury öðru sinni í fjórðu umferð ensku bikarkeppninnar þar sem hann sjálfur og aðalliðið verða í vetrarfríi.

Shrewsbury og Liverpool skildu jöfn í gær, 2:2, þar sem Klopp var með hálfgert varalið sem missti niður tveggja marka forystu. Dejan Lovren, Joel Matip og Fabinho voru í byrjunarliðinu og Klopp setti Mohamed Salah, Roberto Firmino og Alex Oxlade-Chamberlain inn á til að freista þess að knýja fram sigur. Þar með þurfa liðin að mætast aftur á Anfield í næstu viku.

„Ég  var búinn að segja strákunum fyrir  tveimur vikum að við yrðum í vetrarfríi á þessum tíma og það þýðir að við verðum ekki heima þegar seinni leikurinn fer fram. Úrvalsdeildin bað okkur um að virða vetrarfríið og gefa mönnum frí. Ef knattspyrnusambandið ætlar ekki að fara eftir því verður svo að vera. Við verðum ekki á staðnum,“ sagði Klopp við bBC.

„Við verðum að virða leikmennina og velferð þeirra. Þeir þurfa frí, bæði andlega og líkamlega, og um það snýst þetta vetrarfrí. Leikmennirnir eiga fjölskyldur og þess vegna þurfti að ákveða þetta með fyrirvara,“ sagði Klopp.

Staðan verður því sú sama og þegar Liverpool mætti Aston Villa í átta liða úrslitum deildabikarsins um miðjan desember. Sá leikur rakst á ferð Liverpool til Mið-Austurlanda vegna heimsbikars félagsliða og fyrir vikið spilaði unglingaliðið fyrir hönd félagsins og tapaði 5:0. Klopp staðfesti að Neil Critchley, þjálfari varaliðsins sem stjórnaði liðinu í leiknum við Aston Villa, yrði við stjórnvölinn gegn Shrewsbury.

mbl.is