Þurfum að eiga fullkominn leik

Bernardo Silva hjá Manchester City með leikmenn Manchester United á …
Bernardo Silva hjá Manchester City með leikmenn Manchester United á hælunum í fyrri viðureign liðanna á Old Trafford. AFP

Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri Manchester United, segir að hans menn þurfi að spila fullkominn leik gegn Manchester City á Etihad-leikvanginum annað kvöld til að geta slegið nágranna sína út í undanúrslitum deildabikarsins og komist í úrslitaleikinn.

City vann fyrri leik liðanna á Old Trafford, 3:1, eftir að hafa náð þriggja marka forystu í fyrri hálfleik og stendur því afar vel að vígi.

„Einvígið virtist vera búið í hálfleik því þeir yfirspiluðu okkur seinni hluta fyrri hálfleiksins. En okkur tókst að skora og vorum nærri því að ná öðru marki. Nú verðum við að leita í reynslubankann og minnast leiksins við París SG því þetta höfum við gert áður. Útisigurinn gegn City í desember gefur okkur líka vonir um að við getum gert eitthvað," sagði Solskjær á fréttamannafundi í dag og vitnaði í frækinn sigur United á París SG í Meistaradeildinni síðasta vetur þar sem liðið vann 3:1 í París eftir að hafa tapað 2:0 á heimavelli.

Aston Villa og Leicester mætast í hinu undanúrslitaeinvíginu í dag en þau skildu jöfn í Leicester, 1:1, í fyrri leiknum fyrir tveimur vikum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert