Bergwijn kátur með að vera kominn til Tottenham

Steven Bergwijn í leik með PSV í vetur.
Steven Bergwijn í leik með PSV í vetur. AFP

Hollenski knattspyrnumaðurinn Steven Bergwin hefur staðfest að hann sé genginn til liðs við Tottenham Hotspur sem kaupir hann af PSV Eindhoven fyrir 25,4 milljónir punda.

Bergwijn er 22 ára kantmaður og semur við enska félagið til ársins 2025. „Ég hef alltaf litið upp til Josés Mourinhos sem er toppþjálfari og nú mun ég spila fyrir hann. Það er frábært að vera hérna, sjáið bara aðstöðuna. Þegar ég spila FIFA á PlayStation vel ég nánast alltaf lið úr úrvalsdeildinni. Ég hlakka til að spila í þeirri frábæru stemningu sem er í þessari deild,“ sagði Bergwijn við De Telegraaf sem ræddi við hann á æfingasvæði Tottenham.

Bergwijn hefur verið í röðum PSV frá 14 ára aldri og skoraði 29 mörk í 112 leikjum fyrir liðið í hollensku úrvalsdeildinni. Hann á að baki sjö leiki fyrir A-landslið Hollands og tugi leikja fyrir yngri landsliðin. Hann var valinn besti leikmaðurinn í úrslitakeppni Evrópumóts U17 ára landsliða árið 2014 og fagnaði þremur hollenskum meistaratitlum með PSV.

Tottenham staðfesti komu Hollendingsins til félagsins rétt í þessu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert