Fernandes í sjónmáli hjá United

Bruno Fernandes er á leið til Manchester United að óbreyttu.
Bruno Fernandes er á leið til Manchester United að óbreyttu. AFP

Eitt af langdregnustu málunum í enska félagaskiptaglugganum í þessum janúarmánuði virðist vera að leysast en Manchester United og Sporting Lissabon hafa náð samkomulagi um kaup enska félagsins á portúgalska landsliðsmanninum Bruno Fernandes.

Samningaviðræður hafa staðið yfir lengi og margar fréttir hafa verið skrifaðar um þær í enskum og portúgölskum miðlum síðustu vikurnar. Sky Sports segir að United hafi á síðasta sólarhring hækkað tilboð sitt í leikmanninn og nú hafi forráðamenn Sporting fallist á að fá tæpar 68 milljónir punda fyrir miðjumanninn öfluga.

Reiknað er með að gengið verið frá kaupunum í dag en samkvæmt Sky Sports er aðeins beðið eftir að geta lokið pappírsvinnunni sem þeim fylgir. Fernandes er væntanlegur í læknisskoðun hjá enska félaginu í dag.

Bruno Fernandes er 24 ára gamall og hefur leikið 19 landsleiki fyrir Portúgal en hann spilaði með liðinu á HM 2018 í Rússlandi. Hann fór 17 ára til Ítalíu og lék þar í fimm ár með Novara, Udinese og Sampdoria en Sporting keypti hann sumarið 2017 og samdi við hann til fimm ára. Hann hefur gert 39 mörk í 83 deildaleikjum fyrir Sporting og samtals 64 mörk í 137 mótsleikjum. 

Á síðasta tímabili gerði Fernandes 33 mörk fyrir Sporting og setti met í markaskorun miðjumanns í portúgölsku deildinni.

mbl.is