United þarf að borga aukagreiðslu ef Fernandes fær Gullboltann

Bruno Fernandes fagnar marki fyrir Sporting Lissabon.
Bruno Fernandes fagnar marki fyrir Sporting Lissabon. AFP

Portúgalska knattspyrnufélagið Sporting Lissabon hefur sent frá sér yfirlýsingu þar sem útskýrt er hvað félagið fái í sinn hlut fyrir söluna á miðjumanninum Bruno Fernandes til Manchester United.

Upphaflega kaupverðið er um 47 milljónir punda en við þá upphæð getur bæst allt að 21 milljón punda í viðbót. Sporting mun fá aukagreiðslur miðað við leikjafjölda Fernandes, ef Manchester United kemst í Meistaradeild Evrópu, og svo ef leikmanninum tekst að vinna til hinna og þessa einstaklingsverðlauna. Meðal annars er tiltekið hvað Sporting á að fá í sinn hlut ef hann hlýtur Gullboltann (Ballon d'Or).

Fernandes mun vera farinn til Englands til að gangast undir læknisskoðun og reiknað er með að hann verði kynntur til leiks sem nýr leikmaður Manchester United á morgun. Ljúka þarf allri pappírsvinnu fyrir hádegið til að hann verði gjaldgengur með liðinu gegn Wolves í úrvalsdeildinni á laugardaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert