Vill ekki sjá Liverpool vinna titilinn

Carlo Ancelotti vill ekki horfa á Liverpool vinna Englandsmeistaratitilinn.
Carlo Ancelotti vill ekki horfa á Liverpool vinna Englandsmeistaratitilinn. AFP

Carlo Ancelotti, knattspyrnustjóri Gylfa Þórs Sigurðssonar og samherja hans hjá Everton, vill ekki sjá Liverpool verða Englandsmeistara á Goodison Park, heimavelli Everton. 

Liverpool er með 22 stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar og virðist einungis spurning hvar og hvenær Liverpool verður meistari í fyrsta skipti í 30 ár, en ekki hvort. 

Ef Liverpool tapar ekki stigum þar til liðið mætir Everton á Goodison Park 13. mars og Manchester City og Leicester misstíga sig, gæti Liverpool orðið meistari á heimavelli erkifjandanna. Skiljanlega er Ancelotti ekki hrifinn af þeirri hugmynd. 

„Það búast allir við að Liverpool vinni þetta, en vonandi ekki á Goodison Park. Það eru margir vellir, af hverju Goodison?“ svaraði Ítalinn á blaðamannafundi í dag. 

mbl.is