Ighalo ekki með United vegna kórónuveirunnar

Odion Ighalo.
Odion Ighalo. Ljósmynd/Manchester United

Nígeríski framherjinn Odion Ighalo getur ekki ferðast með Manchester United til Spánar í dag vegna kórónuveirunnar sem á uppruna sinn í Wu­h­an-borg í Kína.

Ighalo gekk í raðir Manchester United á Englandi á lánssamningi frá Shanghai Shenhua frá Kína. Leikmenn United eru í vetrarfríi frá úrvalsdeildinni um þessar mundir og ferðast til Spánar síðar í dag í æfingaferð. Það þarf hins vegar að skilja nýja framherjann eftir heima þar sem forráðamenn félagsins hafa áhyggjur af því að honum yrði ekki hleypt aftur til Bretlands.

„Félagið getur staðfest að vegna ástandsins í Kína, hefur verið ákveðið að Odion Ighalo ferðast ekki með til Spánar þar sem ekki er hægt að tryggja að honum yrði hleypt aftur inn í landið,“ segir í fréttatilkynningu frá United en útlendingaeftirlit Bretlands íhugar nú að herða reglur sem varða ferðamenn sem nýlega hafa verið í Kína.

„Við getum ekki verið viss um að honum verði hleypt aftur inn í England,“ sagði Ole Gunnar Solskjær, knattspyrnustjóri United. „Hann verður því um kyrrt hér og æfir með einkaþjálfara og hefur nægan tíma til að koma sér fyrir með fjölskyldu sinni. Auðvitað vildum við taka hann með en við tökum heldur enga sénsa.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert